smelltu til að virkja aðdrátt
searching...
Við fundum engar niðurstöður
opna kortið
Útsýni Leiðbeiningar Gervihnatta Hybrid Terrain Staðsetning mín Fylla skjá Fyrri Næst
Við fundum 0 niðurstöður. Skoða niðurstöður
Leita að eign
við fundum 0 niðurstöður
Leitarniðurstöður þínar

Hvað gerir Félag fasteignasala næst?

Sent af Gandri Bergmann á 21. nóvember, 2017
| 0

Staðnaðar atvinnugreinar

Er Félag fasteignasala að stunda ólögmætt samráð gegn nýliðum sem rugga núverandi markaðsmódeli?

Það er skiljanlegt að staðnaðar atvinnugreinar pakki í vörn þegar markaðurinn þróast í takt við samfélagskröfur. Dæmin sýna samt, að þau fyrirtæki sem fastast halda í forna frægð fara verst út úr kröfum samfélagsins um breytingar.
Fasteignasala er dæmi um atvinnugrein sem neitar að horfast í augu við framtíðina. Þjónusta fasteignasala er í eðli sínu einföld, en fornar aðferðir flækja upplifun neytandans og taka af honum völdin í ferlinu. Tilraunum nýliða á markaði til að færa þjónustuna til nútímans svara forsvarsmenn fasteignasala með því að pakka með mismunandi ósvífnum hætti í vörn.

Nýlega tókum við að birta útreiknað sölu- og leiguverð fasteigna á höfuðborgarsvæðinu á vef okkar, procura.is .
Fasteignamarkaðurinn tók þessu vel og það var greinilegt á viðbrögðum húseigenda að þetta voru upplýsingar sem markaðurinn vildi hafa gjaldfrjálsan aðgang að.

Stöðluð þjónusta

Verðmyndun er ekki í nokkru samræmi við þá þjónustu sem boðin er

Næsta skref var að taka saman og birta upplýsingar um kostnað sem fasteignasalar innheimta þegar þeir hafa milligöngu um kaup og sölu fasteigna. Niðurstaða okkar var að gríðarlegur verðmunur er á þjónustu fasteignasala. Enginn gat þó bent á í hverju verðmunurinn fælist. Þannig var sama þjónusta innifalin hjá ódýrustu fasteignasölunni og þeirri dýrustu og undantekning ef einhver bauð þjónustu umfram það. Allir áttu það þó sammerkt að þeir töldu einstakt þjónustustig réttlæta verðlagninguna.

Það þarf ekki að skoða framboð fasteignasala lengi til að sjá að þjónustuframboð þeirra er mjög einsleitt. Það er auðvitað af þeirri einföldu ástæðu að fasteignaviðskipti eru í eðli sínu einsleit viðskipti. Jón og Gunna eru að kaupa fasteign af Jónu og Gunna. Kaupendur greiða með lánum og eiginfé og það er síðan notað til að greiða upp áhvílandi lán og auka við lausafé seljenda. Stundum þarf að flytja lán eða yfirtaka, en í grunnin er þetta svona.

Það var því eðlilegt framhald hjá okkur að bjóða kaupendum og seljendum aðstoð við að leita tilboða í þjónustu fasteignasala. Við kynntum þetta lítillega á Facebook og fengum nokkur viðbrögð. Viðbrögð fasteignasala voru í fyrstu góð, en síðan tóku þeir að hringja sín á milli og hljóðið breyttist. Fundað var á skrifstofu Félags fasteignasala og línan lögð.

Þetta upphlaup Procura var auðvitað stórskaðlegt… þeim.

Viðbrögð Félags fasteignasala – Kerfinu beitt

Fjölpóstur var sendur á alla félagsmenn þar sem þeir voru varaðir við að eiga viðskipti við Procura og fullyrt að þar ættu sér stað alvarleg brot gegn lögum landsins, án þess að það væri frekar rökstutt. Kæra var send Neytendastofu og aftur fullyrt að Procura stundaði alvarleg brot gegn lögum landsins, án þess að það væri frekar rökstutt. Kvörtun var send Persónuvernd og þar einnig fullyrt að Procura stundaði alvarleg brot gegn lögum landsins, á þess að það væri frekar rökstutt.

Félag fasteignasala beit síðan höfuðið af skömminni með því að framkvæmdastjóri félagsins lagði fram kvörtun fyrir hönd félagsmanna til sjálfs sín, en hann hafði sem móttakandi sest hinum megin við borðið sem einn af þremur nefndarmönnum í svokallaðri Eftirlitsnefnd fasteignasala. Þar var sett saman ótrúlegt bréf þar sem forsvarsmanni Procura var tilkynnt að hann yrði kærður til lögreglu og aðstoðar sýslumanns leitað við að loka vefsíðu og starfsstöð ef hann gerði það ekki sjálfur fyrir kl. 16:00 degi síðar. Óskum Procura um að koma á framfæri andmælum var umsvifalaust hafnað og þá taldi nefndin algjörlega þarflaust að skoða málið, rannsaka það eða kynna sér aðrar hliðar þess. Eðlileg viðbrögð okkar fólust í að benda á hið augljósa, að Eftirlitsnefnd fasteignasala væri ekki valdbær til að hlutast til um starfsemi Procura frekar en annarra þjónustufyrirtækja út í bæ og Sýslumaður hefur eðlilega ekki séð nokkra ástæðu til að taka þátt í þessum undarlega farsa fasteignasalanna.

Misnotkun valds

Þegar ljóst var að Procura sá ekki ástæðu til að loka starfsstöð sinni að kröfu einhverrar nefndar út í bæ, þá setti Eftirlitsnefnd fasteignasala saman svokallað umburðarbréf til allra fasteignasala á landinu. Þar var ekkert verið að tala undir rós. Fasteignasalar sem ættu í viðskiptum við Procura, ættu á hættu að verða kærðir til lögreglu og til að sæta öðrum agaviðurlögum. Með öðrum orðum, þá var fasteignasölum hótað réttindamissi og lögreglukæru ef þeir gerðust svo djarfir að bjóða fram þjónustu sína með tilboði til neytenda á jafnræðisgrunni. Eðlilega héldu óbreyttir fasteignasalar að sér höndum eftir þetta útspil.

Við höfum, frá því þetta upphlaup forsvarsmanna fasteignasalan hófst fyrir þremur mánuðum, áfram haldið úti öflugri vefsíðu þar sem notendur geta séð áætlað sölu- og leiguverð fasteigna á höfuðborgarsvæðinu. Við sýnum einnig hvað flestir fasteignasalar kosta og hvað þeir rukka í svokallað umsýslugjald.

Varðandi erindi og kærur Félags fasteignasala gegn okkur, þá hefur þeim verið svarað og hlökkum við til þess að úrskurðir verði birtir svo við getum haldið áfram að þróa bætta upplifun fasteignaeigenda af fasteignaviðskiptum.

Skildu eftir skilaboð

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Bera saman eignir