smelltu til að virkja aðdrátt
searching...
Við fundum engar niðurstöður
opna kortið
Útsýni Leiðbeiningar Gervihnatta Hybrid Terrain Staðsetning mín Fylla skjá Fyrri Næst
Við fundum 0 niðurstöður. Skoða niðurstöður
Leita að eign
við fundum 0 niðurstöður
Leitarniðurstöður þínar

Eftirlitsnefnd fasteignasala misbeitir valdi

Sent af Gandri Bergmann á 13. desember, 2017
| 0

Þjónkun við Félag fasteignasala

Þegar lögum um sölu fasteigna var breytt árið 2015 var það ekki síst vegna kröfu um að sjálfstæðri eftirlitsstofnun yrði gert að hafa eftirlit með fasteignasölum í stað þess að fasteignasalar hefðu eftirlit með sjálfum sér í gegn um hagsmunasamtök sín. Þannig var sett á stofn nefnd, Eftirlitsnefnd fasteignasala. Einn af þremur nefndarmönnum er framkvæmdastjóri Félags fasteignasala.

Procura er ekki fasteignasala

Procura gerði á haustdögum tilraun til að einfalda samanburð á störfum fasteignasala með því að aðstoða neytendur við að leita tilboða hjá fasteignasölum. Auðvitað hafði þetta þau áhrif að fasteignasalar þurftu að setja upp ákveðið verð og skilgreina þjónustu sína.
Það líkaði flestum, en ekki öllum og þó margir fasteignasalar lýstu ánægju með framtakið þá höfðu fulltrúar 6 af 141 fasteignasölu samband og lýstu andstöðu við þessa upplýsingagjöf. 4 af þessum 6 eiga fulltrúa í stjórn eða varastjórn Félags fasteignasala.
Procura starfar ekki við fasteignasölu og þó um Procura gildi að sjálfsögðu sömu lög og reglur og um önnur þjónustufyrirtæki, þá hefur Eftirlitsnefnd fasteignasala ekkert um rekstur Procura að segja.

Glórulaus aðför

Tveimur dögum eftir að Procura bauð fasteignasölum fyrst að gera tilboð í sölumeðferð eigna var Félag fasteignasala búið að funda með framkvæmdastjóra sínum og hann samdægurs mættur á rúmlega klukkustundar langan fund hjá Eftirlitsnefnd fasteignasala sem einn af þremur nefndarmönnum. Þar var rannsókn hafin, framkvæmd og lokið á starfssemi og þjónustu Procura. Jafnframt var á þessum fundi skrifað langt bréf þar sem fullyrt var að þjónusta Procura bryti gegn fjölmörgum lögum og að yrði vefsíðu og starfsstöð fyrirtækisins ekki lokað fyrir klukkan 16:00 daginn eftir yrði Sýslumaður beðinn um aðstoð við að loka vefsíðunni procura.is. Þá var tilkynnt að forsvarsmaður félagsins hefði verið kærður til lögreglu ásamt því að Félags fasteignasala hefði lagt fram kærur hjá Neytendastofu og Persónuvernd.
Auðvitað var þessari glórulausu aðför mótmælt, en mótmælunum blés Eftirlitsnefndin af öxlinni eins og hverju öðru kuski með þeim orðum að hún þyrfti nú ekki að taka til greina einhver andmæli eða sinna einhverju smotterí eins og rannsóknarskyldu.

Fordæmalaus hótun Eftirlitsnefndar

Hálfum mánuði síðar fannst þessari sömu nefnd líklega ómögulegt að ekki væri búið að koma í veg fyrir starfssemi Procura og var því skrifað eitt það ótrúlegasta bréf sem opinbert stjórnvald hefur látið frá sér fara. Var bréfið sent á alla löggilta fasteignasala landsins og þeim tilkynnt að ef þeim dytti nú í hug að eiga í viðskiptum við Procura þá væri líklegt að þeir hinir sömu misstu réttindi sín og yrðu jafnframt kærðir til lögreglu. Þar með var lokað fyrir alla frekari möguleika Procura að afla sér tekna samkvæmt áætlunum sem fyrirtækið og forsvarsmenn þess höfðu unnið að um langan tíma. Rekstrargrundvöllurinn var brostinn þar sem eðlilega þorði enginn fasteignasali að leggja atvinnuréttindi sín að veði þó þeim líkaði vel nýjung Procura.

Umboðsmaður Alþingis tekur málið til meðferðar

Umboðsmaður Alþingis er vanmetið batterí. Örfáum dögum eftir að málið var tilkynnt Umboðsmanni var búið að krefja Eftirlitsnefndina um öll gögn og fundargerðir sem að málinu sneru. Nú, fjórum mánuðum síðar hefur Umboðsmaður krafið Eftirlitsnefndina svara í harðorðu bréfi. Augljóst er af lestri bréfs og þeim spurningum sem Eftirlitsnefndinni er gert að svara fyrir 2. janúar, að nefndin hefur gróflega misfarið með vald sitt, brotið á stjórnarskrárvörðum atvinnuréttindum Procura og jafnvel skapað ríkinu skaðabótaskyldu.

Misfarið með vald stjórnvalds

Allt ber þetta að því sem nefnt er hér í upphafi. Stjórnvöld breyttu lögum til þess að koma í veg fyrir að fasteignasalar hefðu eftirlit með sjálfum sér en þegar einn af þremur nefndarmönnum er launaður fulltrúi hagsmunasamtaka fasteignasala þá er ljóst að tilgangi laganna hefur ekki verið náð að öllu leiti.
Samkvæmt gögnum málsins þá er þetta mál allt þannig til komið að framkvæmdastjóri Félags fasteignasala kvartar til Eftirlitsnefndar fasteignasala. Segir að Procura sé að brjóta lög. Sami aðili keyrir síðan úr Síðumúlanum upp á Höfðabakka þar sem hann tekur sama dag þátt í afgreiðslu stjórnvalds um mál þar sem afdrif löghlýðinna borgara eru undir. Stjórnvaldið neitar borgaranum um andmælarétt og hefur jafnframt að engu skyldu sína til að rannsaka málið.
Ég skal ekki segja, en hér lyktar eitthvað illilega og þökk sé Umboðsmanni Alþingis fyrir gott nef fyrir staðreyndum.

Skildu eftir skilaboð

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Bera saman eignir